Þú átt eitt líf.. Veldu Fitlíf

MARKMIÐ/MARKMIÐASETNING

MARKMIÐ/MARKMIÐASETNING

Þegar byrjað er að stunda líkamsrækt er mikilvægt að setja sér skýr markmið. Hverju á
líkamsræktin að breyta eða bæta? Langar viðkomandi að byggja upp vöðvamassa,
grennast, styrkjast eða bara að komast í alhliða betra form, til að líða betur með sjálfan sig?
Markmiðasetning er skilgreind sem áætlun um hvernig best sé að ná ákveðnu takmarki

Það eru til nokkrar tegundir af markmiðum.
Þar má nefna:
Niðurstöðumarkmið – Felst í því að einblína á lokamarkmið. T.d. ég ætla að lyfta 100 kg
í bekkpressu eða ég ætla að missa 10 kg.
Frammistöðumarkmið – Felst í því að komast á ákveðið getustig. T.d. komast á pall í keppni.
Ferlismarkmið – Snúast um að bæta ákveðna tækni, hreyfingu eða færni. t.d. að bæta tækni í hnébeygju.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að markmiðasetning er tækni sem virkar. Meira en 90%
rannsókna sýna markverð og stöðug áhrif markmiðasetningar á íþróttir og atvinnu. Ástæða
þessa er að markmiðin auka sjálfstraust og draga úr kvíða, sem aftur leiðir til bættrar
frammistöðu viðkomandi. Þau beina athyglinni að atriðum sem eru mikilvæg í færni, það
verður meira framlag frá einstaklingnum, þrautseigjan eykst og þetta verður til þess að
einstaklingurinn leitar nýrra leiða til að bæta sig.

Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga við markmiðasetningu:
 Að setja sér sértæk markmið.
 Að setja sér krefjandi en raunhæf markmið.
 Að setja sér skammtíma- og langtímamarkmið.
 Að setja sér frammistöðu og ferilsmarkmið og einnig niðurstöðumarkmið.
 Æfinga- og keppnismarkmið.
 Mikilvægt er að skrá niður markmið og skoða þau daglega.
 Að finna aðferð til að ná markmiðum.

SMARTS markmiðasetning er góð leið til að hjálpa fólki að ná markmiðum sínum. Hver
stafur í orðinu SMARTS stendur fyrir eina áherslu sem er mikilvæg í markmiðssetningu.

Sértæk – Markmiðið á gefa til kynna nákvæmlega hvað á að gera. Til dæmis að
vilja lyfta 100 kg í bekkpressu, auka ummál handleggs um 3 cm eða létta sig um 5
kg.
Mælanleg – Markmiðin verða að vera mælanleg, það er ekki jafn áhrifaríkt að setja
sér markmið um að vilja minna mittismál, eða bæta sig í bekkpressunni. Mælanleg
markmið eru til dæmis markmiðið hér að ofan, um að lyfta 100 kg í bekkpressu,
missa 10 cm af mittisummálinu eða auka máltíðafjölda yfir daginn úr fjórum í sex.
Athafnamiðuð – Markmið eiga að gefa til kynna eitthvað sem á að gera.
T.d. ég ætla að mæta 3 sinnum í ræktina í viku eða að hætta að drekka gosdrykki.
Raunhæf – Markmiðin þurfa að vera raunhæf. Margir gera mistök varðandi þetta.
Það er gott að setja sér krefjandi markmið sem eru mikil áskorun en þau mega ekki
vera óraunhæf. Slíkt veldur gremju hjá viðkomandi og eru engum til hjálpar.
T.d einstaklingur sem nýlega er byrjaður að lyfta, hann hefur mest
náð 60 kg í bekkpressu fimm sinnum. Hann setur sér markmið að taka 100 kg eftir
eina viku. Þetta er óraunhæft markmið sem hann getur ekki náð.
Tímamiðuð – Markmið verða að vera sett innan ákveðins tímaramma. Til dæmis
er hægt að setja sér það markmið að ætla að lyfta 100 kg í bekkpressu eftir tvo
mánuði, og vinna síðan skipulega að því allan tímann. Það er áhrifaríkara að hafa
tímaramma á markmiðunum.
Sjálfssprottin – Markmiðin sem einstaklingurinn setur sér ættu að vera eitthvað
sem viðakomandi langar sjálfan að gera eða geta. Þau ættu ekki að vera komin frá
foreldrum, kennurum eða þjálfurum.